154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:24]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og spurningin er um sameiningar framhaldsskólanna. Ég hef farið í gegnum margar sameiningar á minni starfsævi og komið að nokkrum sem sveitarstjórnarfulltrúi, m.a. þegar sameiningin var á heilbrigðisstofnunum. Síðan voru lögreglu- og sýslumannsembættin sameinuð þegar ég var starfandi þar þannig að ég þekki nú ágætlega svona sameiningarferli. Ég get alveg sagt það hér að reynsla mín af slíkum sameiningum er bara mjög misjöfn og þess vegna tek ég undir orð hæstv. ráðherra hér í gær sem sagði akkúrat þetta: Við erum ekki að sameina bara til að sameina. Við erum ekki að fara að hagræða bara til þess að hagræða. Markmið sameiningar hlýtur að vera að auka gæði. Þú ert að auka gæði þeirra stofnana og þeirra afurða sem eru þar inni, það er markmið sameiningar, í þessu tilfelli að búa betur að þeim einstaklingum sem vilja koma í verknám eða bóknám. Til þess þarf fjármagn í dag. Sameining er ein leið til að ná í slíkt fjármagn. Önnur leið er að auka það hér á Alþingi. En stóra málið er það sem við megum ekki, og aldrei í þessari umræðu, missa sjónar á: Af hverju erum við í þessari umræðu? Af hverju erum við að ræða um sameiningar? Það verður að vera á þeirri forsendu að við ætlum að auka gæði þess sem við erum að fara að sameina, auka þjónustu. Það er eina ástæðan fyrir því að ég er til í að ræða hér sameiningu. Ég hef farið, eins og ég sagði áðan, í gegnum sameiningarferli sem hafa ekki náð þessu og ég hef séð sameiningar sem hafa ekki náð þessu. Þannig að við þurfum að vanda okkur vel (Forseti hringir.) og ég hef fulla trú á því að ráðherrann sé á þeirri vegferð.